Andvari fær öflugan liðsstyrk
11. nóvember 2025

Andvari fær öflugan liðsstyrk

Róbert Helgason og Kári Kolbeinsson hafa gengið til liðs við Andvara. Farsældarhraðallinn mun njóta góðs af yfirgripsmikilli reynslu þeirra og getu í vegferðinni að aukinni farsæld á Íslandi og til að leggja stoðir inn í uppbyggingu á framúrskandi mennta- og heilbrigðiskerfi.

Róbert Helgason

Róbert gengur til liðs við okkur sem tæknistjóri Andvara. Róbert sem er menntaður tölvunarfræðingur frá Chapel Hill í Bandaríkjunum er reynslumikill fjármála- og gervigreindar sérfræðingur. Róbert hefur m.a. stofnað og rekið gjaldmiðla- og verðbréfasjóði, starfað sem rannsakandi hjá hinu opinbera og leitt lykilþætti í afnámi gjaldeyrishafta hjá Seðlabankanum eftir bankahrunið árið 2008. Síðustu ár hefur Róbert verið afkastamikill frumköðull, sérstaklega á sviði gervigreindarlausna.

"Róbert er einhyrningur. Ég kynntist honum þegar mér var fengið hálf ómögulegt verkefni fyrir stjórnvöld fyrir mörgum árum. Þegar verið var að fara yfir flækjustig verkefnisins man ég að ég hugsaði að það væri ógjörningur að komast í gegnum þetta allt. Nánast eins og til að svara hugleiðingum mínum var lokapunkturinn í kynningunni einhvernvegin svona: "Já og svo færðu náttúrulega Róbert til að hjálpa þér að skilja þetta". Það reyndist vera ansi mikil himnasending og næstu vikur hugsaði ég ítrekað þegar Róbert var að kenna mér að vonandi yrði ég einn daginn svona klár.

Róbert hefur framúrskarandi greiningargetu og óslökkvandi áhuga á nýjust tækni og gervigreind og hefur alla tíð sem ég hef þekkt hann verið að smíða kerfi í átt að aukinni sjálfvirkni og betri afköstum á ýmsum sviðum. Hann er sá fyrsti sem kynnti mig fyrir gervigreind í þeirri mynd sem hún breytir núna lífi okkar, langt áður en aðrir höfðu áhuga og hafa nær allar spár hans á því sviði ræst undanfarin ár. Mikilvægasti og fallegasti eiginleiki Róberts er hinsvegar risa hjarta fyrir samfélaginu og börnunum sínum. Róbert vill niður í sinn innsta kjarna gera allt sem hann getur til að það verði betra að alast upp og lifa og starfa á Íslandi. Ég var svo þakklátur þegar Róbert sýndi Andvara einlægan áhuga og það er ekki spurning að hann er hárrétur maður inn í okkar orrustu."

-Tryggvi Hjaltason, framkvæmdarstjóri Andvara

"Sem faðir þriggja ungra barna hef ég brennandi áhuga á því hvernig við á Íslandi getum best undirbúið okkur fyrir þær hröðu breytingar sem verða í komandi framtíð. Það eru tækifæri í smæðinni á Íslandi að geta unnið þrekvirki í að undirbúa og hvetja komandi kynslóðir."

-Róbert Helgason


Kári Kolbeinsson

Kári gengur til liðs við okkur sem gagnastjóri Andvara. Kári er gagnavísindamaður, menntaður í tölfræði frá ETH Zürich og fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur yfir áratugar reynslu af gagnavísindum og viðskiptagreiningu, meðal annars frá Meta (Facebook), CCP og Símanum, þar sem hann hefur þróað tekjulíkön, unnið með notendagreiningu og stutt stefnumótandi ákvarðanatöku. Verkefni hans hafa ítrekað snúist um að byggja upp traust gagnakerfi, skilgreina skýr árangursviðmið og umbreyta flóknum gögnum í hagnýta innsýn fyrir ákvarðanatöku.

"Kára kynntist ég í tölvuleikjabransanum. Þegar við vorum að endurbyggja greiningardeild CCP Games þá var Kári lykil gagnasérfræðingur í þeirri vegferð sem ég vann náið með. Kári býr yfir mörgum ofurkröftum en tveir sem komu hratt og bersýnilega í ljós við að vinna með honum voru að í fyrsta lagi hefur hann áreynslulausan djúpskilning á öllu sem snýr að gögnum, en ekki bara það, heldur einnig hvernig gögn búa til verðmæti og innsýn sem hægt er að breyta eftir og hvernig ber að útskýra það fyrir gagna ólæsum. Þetta er furðu sjaldgæf tvenna. Kári fær gagnasett og skilur hratt hvernig það er uppbyggt og hverjar takmarkanir þess eru, en síðan getur hann teiknað skýrt upp í stigum hvernig gögnin geta gefið lærdóm, aukið virði og stundum opnað á ómetanlega þekkingu. Í öðru lagi er Kári með hjarta úr gulli. Kári leitar ítrekað eftir því sem stækkar manninn, sem færir kærleika og ávinning inn í aðstæður fyrir fólk. Þetta virðist mér vera hans efsti filter og það setur hann í sérflokk. Andvari setur áherslu á lærdóm og aukin skilning á hvað virkar til að byggja aukna farsæld og er Kári lykil hlekkur í að byggja upp þann skilning."

-Tryggvi Hjaltason, framkvæmdarstjóri Andvara


"Ég hef alltaf trúað því að menntun sé eitt öflugasta verkfæri sem við eigum til að jafna tækifæri og styrkja samfélagið. Mér finnst mikil forréttindi að fá að taka þátt í þessu verkefni, þar sem við nýtum gögn og stafrænar lausnir til að styðja kennara, skóla og nemendur um allt land á mælanlegan og varanlegan hátt."

-Kári Kolbeinsson